Samkvæmt fræðum Feng Shui getur nánasta umhverfi þitt haft allt að því 33% áhrif á það hvernig þér líður. Er ekki tilvalið að nýta sér það til að bæta orkuna í svefnherberginu?
- Taktu rækilega til í fataskápnum og fjarlægðu allan fatnað sem þér líður ekki vel í.
- Fjarlægðu allt sem minnir þig á sársauka, ástarsorg, ástvinamissi, fjarlægðu líka hluti sem minna þig á gamla kærasta/kærustur sem reyndust þér ekki vel. Ef þú vilt ekki losa þig við þessa hluti fyrir fullt og allt þá gengur þú amk frá þeim í kassa sem fer í geymsluna hjá þér. (þessir hlutir eiga alls ekki að vera í svefnherberginu þínu)
- Breyttu til í svefnherberginu, t.d. með því að fá þér nýtt rúmteppi og flotta púða í skemmtilegum litum. Þvoðu gardínurnar í leiðinni – já og að sjálfsögðu þrífur þú allt svefnherbergið. Loftaðu vel út. Skiptu um rúmföt.
- Hvers konar myndefni er á veggjunum í svefnherberginu? Þar eiga hvorki að vera myndir af börnum þínum, foreldrum, tengdaforeldrum eða öðrum ættingjum. Heldur ekki nein trúarleg tákn. Svefnherbergið þitt á að vera til að njóta góðrar hvíldar í – já og að sjálfsögðu fyrir frábært kynlíf. Því er það að eina myndefnið sem þar á heima á að vera rómantískt myndefni og myndir af þér og maka þínum. Að vísu gætir þú líka haft mynd að kínverska tvöfalda hamingjutákninu í suðvestur horninu. Suðvestur hornið er almennt rómantíska svæðið í svefnherberginu og því er upplagt að hafa þar glaðlegar myndir af þér og maka þínum.
- Taktu vel til í náttborðunum, ekkert drasl þar takk.
- Hvað viltu að gerist í svefnherberginu þínu? Sjáðu það fyrir þér og spáðu svo í hvað þú getir gert og hvenær til að svo megi verða.
Farðu vel í gegnum þessi sex atriði. Það væri snilld hjá þér að taka myndir af svefnherberginu áður en þú byrjar að vinna eftir atriðunum 1. – 6. og svo síðan aftur þegar vinnunni er lokið. Það væri líka snjallt hjá þér að skrifa í upphafi stutta lýsingu á því hvernig þér líður með svefnherbergið í upphafi ….. og svo aftur að skrifa í lokin hvernig þér líst á breytingarnar …. og svo t.d. nokkrum vikum síðar hvernig þér líst þá á að hafa ráðist í þessar breytingar.
Það er nefnilega svo oft hægt að gera margvíslegar Feng Shui breytingar án þess að þurfa að kosta miklu til.
EF þú ferð eftir þessari tillögu minni, tekur myndir á undan og eftir, og skrifar lýsingu á undan og eftir og hvort og þá hvernig þér finnst að þessi Feng Shui orkuaukandi vinna hafi gagnast þér – og þú vilt senda mér 2 fyrir og eftir myndir ásamt lýsingunni – þá væri það bæði mjög gaman og áhugavert.
Gangi þér vel – og góða orku!
Jóna Björg Sætran
fengshui@fengshui.is
Námstækni ehf.