Samkvæmt fræðum Feng Shui getur nánasta umhverfi þitt haft allt að því 33% áhrif á það hvernig þér líður. Er ekki tilvalið að nýta sér það til að bæta orkuna í svefnherberginu?
- Taktu rækilega til í fataskápnum og fjarlægðu allan fatnað sem þér líður ekki vel í.
- Fjarlægðu allt sem minnir þig á sársauka, ástarsorg, ástvinamissi, fjarlægðu líka hluti sem minna þig á gamla kærasta/kærustur sem reyndust þér ekki vel. Ef þú vilt ekki losa þig við þessa hluti fyrir fullt og allt þá gengur þú amk frá þeim í kassa sem fer í geymsluna hjá þér. (þessir hlutir eiga alls ekki að vera í svefnherberginu þínu)
- Breyttu til í svefnherberginu, t.d. með því að fá þér nýtt rúmteppi og flotta púða í skemmtilegum litum. Þvoðu gardínurnar í leiðinni – já og að sjálfsögðu þrífur þú allt svefnherbergið. Loftaðu vel út. Skiptu um rúmföt.
- Hvers konar myndefni er á veggjunum í svefnherberginu? Þar eiga hvorki að vera myndir af börnum þínum, foreldrum, tengdaforeldrum eða öðrum ættingjum. Heldur ekki nein trúarleg tákn. Svefnherbergið þitt á að vera til að njóta góðrar hvíldar í – já og að sjálfsögðu fyrir frábært kynlíf. Því er það að eina myndefnið sem þar á heima á að vera rómantískt myndefni og myndir af þér og maka þínum. Að vísu gætir þú líka haft mynd að kínverska tvöfalda hamingjutákninu í suðvestur horninu. Suðvestur hornið er almennt rómantíska svæðið í svefnherberginu og því er upplagt að hafa þar glaðlegar myndir af þér og maka þínum.
- Taktu vel til í náttborðunum, ekkert drasl þar takk.
- Hvað viltu að gerist í svefnherberginu þínu? Sjáðu það fyrir þér og spáðu svo í hvað þú getir gert og hvenær til að svo megi verða.
Lestu hér um Örnámskeið Feng Shui í svefnherberginu
Jóna Björg Sætran
fengshui@fengshui.is