Áhrif veggskreytinga

Feng Shui áhrif á hið innra sem ytra – því allt hefur áhrif!

Eftir að myndbandið The Secret var gert og sýnt um allan heim, voru margir sem tóku að skoða betur myndefnið á veggjunum hjá sér á heimilum sínum. Ástæðan var sú að Marie Diamond (Feng Shui meistarinn minn), sem er eini aðilinn frá Evrópu sem kemur fram í The Secret, talaði þar nefnilega opinskátt um hve myndefni getur haft gífurlega mikil áhrif á undirmeðvitund þína. Þetta getur haft áhrif á það sem þú gerir – og hefur ekki síður áhrif á það sem þú lætur ógert. Mynd getur laðað fram gleði og innri ánægju en getur á sambærilegan hátt aukið einmanakennd, vansæld og hryggð. Það er ekki einungis myndefnið sjálft sem hefur áhrif heldur ekki síður litirnir. Feng Shui fræðin vinna meðal annars með frumefnin fimm; eld – jörð – málm – vatn og við. Þá er unnið með eiginleika frumefnanna, form þeirra og hvaða litir tengjast þeim helst.

Lýsingin sem fellur á myndefnið getur líka skipt mál og myndefni getur hentað misvel á veggi eftir staðsetningu. Tökum dæmi um málverk sem eiginkonan hefur í mörg ár verið ósátt við að hafa í stofunni en eiginmaðurinn er vill alveg endilega hafa þetta glæsilega málverk þar. Hvað er þá til ráða? Sé málverkið fært á annan vegg þannig að bakhlið myndarinnar snúi í aðra átt en áður þá sér konan myndefnið hugsanlega í alveg nýju ljósi og fellur málverkið nú mun betur en áður. Í sumum tilvikum dugar að segtja lýsingu fyrir ofan myndina, lítinn ljóskastara sem kallar fram áður hulda liti í málverkinu sem þá glæða það meira lífi en áður.

Myndlistagjafir
Myndlist, hvort heldur er í formi málverka eða ljósmynda, er vinsæl til gjafa. Gefandinn vill gleðja og velur því það sem honum þykir fallegt. Stundum hentar sú mynd engan veginn þeim sem þiggur en er samt sett upp á vegg til að styggja ekki gefandann. Meginreglan ætti að vera sú að forðast að hafa í kringum sig hluti af eintómri skyldurækni við góðan vin, látinn ástvin eða góða og gjafmilda frænku eða frænda.

Á hvað ertu að horfa?
Farðu nú í smárölt um íbúðina þína. Hvað ertu með á veggjunum? Taktu jafnvel myndir af ljómyndunum, málverkunum og alls konar skrautmunum, prentaðu myndirnar út og skoðaðu þær vandlega. Á hvað ertu að horfa? Hvað með hina í fjölskyldunni? Athugaðu að þó svo að þú sért ekki meðvitað beinlínis að horfa á þessa hluti þá ertu jafnvel að meðtaka efni þeirra ómeðvitað í gegnum undirmeðvitund þína því sjónsvið þitt er svo miklu víðara en það svæði sem þú ert að horfa beint á. Getur verið að myndefnið endurspegli líðan ykkar að einhverju leyti? Gerðu ráðstafanir til að geta breytt um myndefni. Ef frænkan gjafmilda kemur í heimsókn og saknar þess að sjá ekki „fallegu myndina“ sem hún gaf þér um árið, þá er til einföld og saklaus lausn, þú segir henni einfaldlega í léttum tón að þú sért að breyta aðeins til …. og leiðir svo talið að öðru.

Unglingaherbergið
Það gæti verið fróðlegt fyrir þig að fá að skyggnast á sama hátt inn í herbergi unglingsins á heimilinu. Hvað er þar á veggjunum? Hvernig er orkan þar? Hvernig gengur unglingnum að fóta sig? Er myndefnið uppörvandi og stefnumótandi á jákvæðan hátt?

X