Þegar þú vilt fegra heimili þitt og efla þar góða Feng Shui orku, þá er ekki
allt fengið með því að kaupa dýra og fína hluti til að prýða heimilið.
Ekki hafa spegilflöt beint á móti útidyrahurðinni
Oft er hægt að nýta spegla, eða myndir með gleri, til að efla góða orku og líka til að draga úr neikvæðri orku. Það skiptir hinsvegar afar miklu máli hvar speglar / spegilfletir eru staðsettir.
Víða eru speglar hafðir í anddyrum íbúða og oft fer mjög vel á því. Þú skalt þó forðast að staðsetja spegil þannig í forstofunni að hann sé eitt það fyrsta sem þú rekur augun í þegar þú opnar útidyrnar til að fara inn í íbúðina.
Hvers vegna? Jú, spegilflöturinn endurvarpar þeirri orku sem á hann fellur. Anddyrið er mjög mikilvægur staður hvað varðar að fá jákvæða orku, Qi, utan frá og inn í vistarverurnar. Ef orkan, sem flæðir inn í íbúðina þegar þú kemur inn að utan, fellur beint á spegilflötinn – þá endurspeglast stór hluti jákvæðu orkunnar út aftur og nýtist þér því aðeins að litlu leiti innandyra.
Ekki láta tískustrauma áhrifavalda ráða því hvaða liti þú lætur vera ríkjandi heima hjá þér.
Það er margt sem hefur áhrif á litaval fólks þegar innrétta á íbúð, bæði hvað varðar liti á veggi, gólfefni, innréttingar og lausamunum. Þá er gott að hafa í huga að ef aðeins 1 litur er ríkjandi, t.d. hvítt, þá dregur það úr orkunni í viðkomandi herbergi. Það sama á við ef allt er t.d. svart / hvítt. Þó svo að þú hafir lítið náð að kynna þér tengsl lita við frumefnin fimm; eld, jörð, málm, vatn og tré, þá skaltu huga vel að litavali þínu og velja þá liti sem þér líður vel með, ekki bara t.d. hvítt né heldur ríkjandi svart og hvítt. Síðan lærir þú meira um áhrifanotkun lita.
Ekki láta óhrein matarílát fylla eldhúsvaskinn að kvöldi.
Eftir því sem áhugi þinn á Feng Shui fer vaxandi, þá er ekki ólíklegt að þú farir að líta eldhúsvaskinn þinn öðrum augum en áður. Þetta hljómar e.t.v. undarlega, en líklega ferðu að þrífa hann betur og gæta þess að hann sé ekki troðfullur af notuðu leirtaui að kvöldi dags. Hvers vegna? Jú, samkvæmt Feng Shui fræðunum þarf að hafa eldhúsvaskinn hreinan að kvöldi og auðan til að neikvæð orka, sem hefur safnast saman yfir daginn í eldhúsinu, eigi greiða leið burt úr eldhúsinu, úr íbúðinni.
Götótt / Holótt motta við útidyrnar lofar ekki góðu.
Við viljum hleypa nýjum tækifærum inn til okkar til að leyfa okkur að blómstra. Sagt er að sé útimotta götótt, eigi tækifærin það frekar til að sogast niður í gegnum götin á mottunni og hverfa út í buskann. Götóttar / Holóttar útimottur eru víða notaðar, þar sem þær henta oft vel til að hreinsa sand, mold eða snjó af útiskónum áður en farið er inn í íbúðina.
Þú getur bjargað þessu við með því að setja heila mottu undir þessa götóttu, sú heila getur vel verið þunn til að gera sitt gagn til að setja undir „lekann“.
Hreyfing myndefnis beint út um gluggann!
Skoðaðu myndir sem þú ert með í íbúðinni. Ef hreyfing á myndefninu er táknum með einhverjum hætti, varaðu þig þá á því að láta það stefna beint út um gluggann. Þú vilt ekki missa af tækifærunum þangað. Veldu myndunum þá frekar nýjan stað þar sem hreyfing myndefnisins er inn í íbúðina.