Það er mjög algengt að nota sírennsli í Feng Shui til að ýta undir jákvætt og gott flæði og ekki síst til að auka undir auðlegð.
Öllum er umhugað um að vita hvar hið svokallaða auðlegðarhorn er í íbúðinni. Almennt er það í suðausturhluta rýmis og oftast er það þá stofan sem verður fyrir valinu. En – þá er önnur spurning, hvar er suðausturhornið í stofunni og hve langt nær suðausturhornið inn í stofuna?

Nú er um að gera að nota áttavitann til að mæla réttar áttir. Síðan – ef þú vilt vita hve langt þetta auðlegðarsvæði nær inn í annað rými stofunnar, þá er komið að því að mæla og skipta rýminu niður í ákveðin svæði. Það er kennt á námskeiðunum okkar, en þangað til getur þú látið þér nægja að finna sjálft suðausturhornið með áttavitanum þínum.

Það eru til margar gerðir af sírennslum og þú velur þér það sem þér hugnast best. Hér setti ég mynd af uppáhalds sírennslinu mínu. Eins og þú sérð þá situr sællegur Búdda upp við vatnssúluna og fær þannig á sig vökva úr sírennslinu.
Sírennsli sem þetta hentar bæði vel í auðlegðarhorninu en einnig sómir það sér vel á svæði þar sem frumefnið jörð er ríkjandi (vegna steinanna sem er raðað í kringum sjálft sírennslið).

Sírennsli eru stundum færð til eftir breytilegum áhrifum (Flying Stars)

Þar sem ég vinn ekki aðeins með Rýmis Feng Shui (Space Feng Shui) heldur einnig með hið síbreytilega Tíma Feng Shui (Flying Stars), þá er ég ekki alltaf með sírennslin mín staðsett á sama stað. Það er alltaf gott að hafa eitt slíkt í auðlegðarhorninu og síðan ákveð ég aðrar staðsetningar eftir því hvað Flying Star fræðin segja mér um breytileg áhrif á orkuflæðið. Áhrifin eru nefnilega breytileg eftir mánuðum og árum, meira að segja er sagt frá breytilegum áhrifum eftir t.d. vikum eða dögum, en ég – og ýmsir viðskiptavina minna líka – við látum okkur nægja að nýta okkur upplýsingar um hvernig áhrifin breytast eftir árum og mánuðum. Til að virkja hin breytilegu áhrif sem best þá notum við ýmsa hluti og liti, hvata og letjandi áhrif, til að ýta undir góða orkuflæðið og draga úr öðrum neikvæðari áhrifum. Einn liður í þjónustu FengShui.is er einmitt að veita viðskiptavinum mánaðarlega upplýsingar í áskrift að þessum upplýsingum sem eru þá aðlagaðar áður að viðkomandi heimili eða fyrirtæki.