Það er hægt að vinna með Feng Shui á all nokkrum sviðum. Þó margir tengi vinnu með Feng Shui eingöngu við uppröðun húsgagna, val myndefnis og skrauthluta* þá er það aðeins einn hluti af Feng Shui.

Rýmis Feng Shui* (= Space Feng Shui ).
Breytingar á híbýlum og umhverfi þeirra; Innrétting húsnæðis og uppröðun hluta, val myndefnis, form og lita. Það skiptir t.d. máli hvar speglar eru staðsettir nálægt aðalinngangi, hvar rúmum er valinn staður og hvernig vinnuaðstaða er skipulögð.
a) Áhersla er á að stýra eftir megni ferð og hraða jákvæðs orkuflæðis í gegnum íbúðina / húsið / fyrirtækið / skrifstofuna.

b) Hér er einnig unnið með 4 bestu (áttavita-) áttir hvers og eins en það ræðst af fæðingardeginum. Til að nýta nætursvefninn sem best ætti hvirfill þinn að snúa í eina af þessum áttum þegar þú sefur. Við dagleg störf ætti hins vegar andlit þitt að snúa í eina af þessum áttum. Ein áttanna er sögð henta best til að ná góðum árangri, önnur tengist heilsu, sú þriðja góðum og gefandi samskiptum og að lokum er ein átt sem nýtist best varðandi nám og alla vinnu tengda andlegum þroska.

Tíma Feng Shui (= Time Feng Shui ) : nær yfir tímabil og breytileg áhrif.
Unnið með breytileg áhrif innan híbýla eftir árum og mánuðum, oft nefnd fljúgandi stjörnur (= Flying Stars). Þeim er skipt í 20 ára stjörnur, ársstjörnur og mánaðarstjörnur.
20 ára áhrifin eru breytileg eftir 20 ára tímabilum. Núna er áttunda tímabilið, það hófst í byrjun febrúar 2004 og endar 4. febrúar 2024. Um er að ræða alls 9 stjörnur sem hreyfast eftir ákveðnum ferlum eftir lengri eða skemmri tímabilum. Hér er auðveldast að vinna með grunnteikningu af húsnæðinu, finna grunnstaðsetningu áhrifasvæðanna (stjarnanna) eftir því úr hvaða átt orkuflæðið kemur inn í húsnæðið (mælt nákvæmlega með áttavita) og vinna síðan með breytileg áhrif og áherslur pr. tímabil, pr. ár og pr. mánuð.
Húsnæðinu er þannig skipt í ákveðna reiti til að auðveldara sé að staðsetja áhrifin. Margir vilja vita um staðsetningu auðlegðarstjarnanna og hvernig megi virkja þær. Ef í ljós kemur að á sama tíma séu 3 auðlegðarstjörnur staðsettar á sama stað í húsinu (tímabilsáhrif, ársáhrif og mánaðaráhrif) þá er áherslan klárlega á að hafa þar allt í röð og reglu og nýta orkuflæðið þar sem best.

Ýmsir hvatar (activators) svo og letjandi áhrif (cures) eru nýtt til að auka eða draga úr áhrifum breytilegra aðstæðna (Tíma Feng Shui).

Viðskipta Feng Shui (= Business Feng Shui ) : á skrifstofum / meðferðarstofum / veitingastöðum / fyrirtækjum.
Hér er bæði unnið með Feng Shui á grunni eigenda, starfsmanna og einnig sjálfs fyrirtækisins.

Umhverfis Feng Shui (= Landscape Feng Shui ): Feng Shui unnið í garðinum / á lóðinni umhverfis húsið / fyrirtækið.
Ára hússins þarf að fá rými til að flæða. Því skiptir nánasta umhverfi miklu máli. Aðkoman að húsinu / fyrirtækinu er líka það fyrsta sem blasir við gestum og gangandi. Fyrstu kynni verða aldrei endurtekin!

Dowsing
Hægt er að nota svokallaða Dowsing pinna til að leita að bæði jákvæðum og neikvæðum orkulínum sem liggja í gegnum húsnæði. Algengast er að leita að neikvæðum línum sem orsakast t.d. af vatni sem liggur undir húsinu (jafnvel á talsvert miklu dýpi), vegna jarðskorpuhreyfinga eða þá af ósamræmanlegum jarðlögum sem liggja saman undir húsinu. Þar sem slíkar línur liggja getur fólk fundið fyrr fyrir þreytu en annars, óróleika og jafnvel mislyndi. Þetta verður einkar óþægilegt ef tvær slíkar línur skarast. Þegar neikvæðar orkulínur liggja í gegnum rúmstæði á fólk oft erfitt með að sofa og njóta góðrar hvíldar. Ef tvær línur skerast í rúmstæði getur einstaklingur sem sefur þar í lengri tíma (nokkur ár) smá saman orðið viðkvæmari fyrir ýmsum líkamlegum kvillum. Hér er aðalmálið að finna neikvæðu línurnar því þá er almennt hægt að draga úr neikvæðum áhrifum þeirra með koparteinum.

Yang – karlorka, hvítt, kraftur, hiti, suður
Ying – kvenorka, svart, kyrrstaða, norður, kuldi

Ótal margt getur haft áhrif á Yin og Yang orkuflæðið. Allt í nánasta umhverfi þínu getur þannig búið til sveiflur / öldur / bylgjur sem hafa áhrif á orkuflæðið í kringum þig. Hlutir sem liggja í hrúgum á gólfi / borði / hillum / í hornum ….. hindra orkuna í að flæða áfram. Rennandi vatn, gosbrunnar, myndir af rennandi vatn ….. geta haft örvandi áhrif á orkuflæðið. Samkvæmt fræðunum skiptir máli hvar sírennsli eru staðsett á hverju tímabili.