
Ég heiti Jóna Björg Sætran og síðastliðin 20 ár hef ég unnið með Feng Shui fræðin til að bæta aðstæður í nánasta umhverfi fólks í þeim tilgangi að auka almenna vellíðan.
Það var árið 1972 að ég kynntist Feng Shui fræðunum fyrst í bókum sem ég rakst á í bókaverslunum í Kaupmannahöfn þar sem ég bjó þá og var við nám. Ég varð hugfangin af fræðunum, en átti erfitt með að átta mig á með hvaða hætti ég gæti nýtt mér þau sjálf. Það var svo mörgum árum síðar, árið 2004 að ég fékk tækifæri til að læra um Feng Shui fræðin hjá virtum Feng Shui meistara, Marie Diamond. Á þessum tíma hafði ég stofnað fyrirtækið Námstækni ehf, kennslu og ráðgjafafyrirtæki, og var í tenglsum við þekkt og virt námstæknifyrirtæki í Bandaríkjunum, Learning Strategies Cooperation. Það var einmitt í gegnum það fyrirtæki sem ég kynntist Marie Diamond Feng Shui meistara. Eftir að hafa lært hjá Marie Diamond á námskeiðum hjá LSC sem og á heimilum hennar í Bandaríkjunum og í Belgíu, þá var ekki aftur snúið og Feng Shui fræðin voru orðin hluti af lífsstíl mínum.
Eftir að ég fór að vinna með Feng Shui fræðin fyrir mig sjálfa spurðist það út og fólk fór að óska eftir ráðgjöf frá mér inni á heimilum sínum. Þeir sem voru með rekstur báðu líka um ráðgjöf á skrifstofunni sinni, aðrir í fyrirtæki sínu. Málin þróuðust þannig að á þessum 20 árum hef ég unnið með ótal fjölskyldum að bættri líðan með fræðum Feng Shui, verið með Feng Shui ráðgjöf og kennslu á fjölmörgum heimilum, á skrifstofum og í fyrirtækjum. Auk þess hef ég verið með fjölda námskeiða, stór og smá, varðandi fræðin og skrifað greinar og pistla sem hafa verið birtir á samfélagsmiðlum og í öðrum fjölmiðlum. Einnig hef ég unnið ýmis verkefni fyrir fjölmiðla (sjá dæmi hér á vefnum).
Það er von mín að vefurinn www.fengshui.is verði þér til ánægju.
6. desember 2024, opnuðum við hjá Námstækni ehf. þennan nýja vef til að þú getir betur kynnt þér hvað við höfum uppá að bjóða.
Hér er, rétt eins og á eldri vefnum okkar, að finna ýmsan fróðleik um fræðin og einnig hvaða þjónustu við hjá Námstækni ehf. bjóðum varðandi ráðgjöf og kennslu tengda Feng Shui fræðunum.
14. apríl 2020 buðum við í fyrsta sinn upp á netnámskeið og ýmsa Feng Shui þjónustu á netfundum. Fram að þeim tíma, frá 2005 til 2020, höfðum við aðeins boðið upp á staðbundin námskeið og staðbundna þjónustu, bæði í Reykjavík og úti á landi. Það var í raun ofur eðlileg og sjálfsögð þróun að flytja þjónustuna á netið þarna 2020 þegar afleiðingar Covid faraldursins settu hefðbundnu námskeiðahaldi þröngar skorður.
Feng Shui námskeið, kennsla og ráðgjöf eiga sér því alllanga sögu hjá okkur í Námstækni ehf. og má segja eðlilegt ferli tengt Feng Shui lífsstíl.
Í dag bjóðum við upp fjölbreytt námskeið, fræðslu og þjónustu. Gefðu þér tíma til að skoða þig um hér á vefnum. Nú bjóðum við einnig upp á Lífstílsleiðsögn pr. Feng Shui, og einstaklingstíma fyrir þá sem eru að velta ýmsu fyrir sér til að bæta orkuflæðið heima hjá sér eða á vinnustaðnum. Önnur nýbreytni eru einkanámskeið varðandi Feng Shui í svefnherberginu, námskeið sem getur farið fram í gegnum netið og kemur sér vel fyrir þá sem kjósa að leggja megin áherslu og einbeitingu á svefnherbergið í upphafi og hafa ekki tíma að sinni til að taka þátt í Master Class Feng Shui námskeiðinu þar sem unnið er með öll helstu herbergi íbúðarinnar og víða komið við.
Það er eðlilegt að þegar þú finnur eitthvað sem nýtist þér og þínum vel, þá viltu halda áfram að rækta það og sinna því vel.
Feng Shui vinnur með orkuna sem er m.a. samspil vatns, vinda og himintungla. Þessi sérstöku fræði eru margra alda gömul listgrein og heimspeki sem hægt er að nýta sér á jákvæðan, einstakan og uppbyggilegan hátt, til að hjálpa sjálfum sér og öðrum til aukinnar vellíðunar, gleði og velsældar.
Það er vissulega aldrei hægt að fullyrða um virkni ákveðinna aðferða, það er aldrei hægt að fullyrða gagnvart öðrum að eitt sé betra en annað. Ég hef verið svo heppin að fá að kynnast vel grunni fræðanna af vel þekktum og virtum Feng Shui meistara, Marie Diamond og er henni og þeim aðstæðum sem gerðu mér það kleift ævinlega þakklát. Nýting fræðanna er sannarlega orðinn hluti af lífsstíl mínum.
Ég hvet þig til að skoða þig vel um hér á vefnum okkar – hafðu endilega samband ef einhverjar spurningar vakna.
Með bestu kveðjum
Jóna Björg Sætran
M.Ed. menntunarfræðingur, PCC markþjálfi
Feng Shui ráðgjöf og kennsla
fengshui@fengshui.is
á begum Námstækni ehf. ( www.namstaekni.is)